Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

laugardagur, september 15, 2007 :::
 
Hæ,
Það var sagt frá því í fréttum að Landsbankinn og Kaupþing gerðu aldeilis vel við bestu viðskiptavini sina. Sá fyrrnefndi býður til þriggja daga Mílanófarar með gistingu á þokkalegu hóteli, þar sem kostar rúmar 50,000 nóttin, ef greitt er fullu verði, upp á óperuferð í La Scala með léttum veitingum á undan og galadinner á sæmilegum matsölustað. Síðarnefndi aðilinn býður til kvöldverðar i Listasafninu, sem eldaður er af innfluttum heimsfrægum matreiðslumeistara. Bornir verða á borð tíu réttir og ódýrustu vínflöskurnar kosta 40.000 kr og þær dýrustu 100.000. Til samanburðar var hélt fréttamaðurinn í Ríkið þar sem dýrustu vínflöskurnar kosta rétt tæpar 20.000 kr. Bankarnir bregðast ekki, sei, sei, nei.
Ég hef gegnum tíðina talið mig og mína fjölskyldu vera einn af bakhjörlum bankanna, þar sem hver króna sem maður vinnur sér inn hefur runnið svo til óskipt gegnum bankana, að undanskildum þeim fjölmörgu krónum, sem skatturinn læsir klóm sínum í og aldrei þær koma til baka, þannig að hvorki bregðumst við né skatturinn.
Það er skemmst frá því að segja að hér hlýtur pósturinn að hafa brugðist, vegna þess að boðskortin á mitt heimili hafa ekki enn borist.
Sé staðreyndin sú að mér hafi ekki verið boðið til þessarar skemmtunar - sem er nú öllu líklegra - legg ég glöð og stolt fram öll mín gjöld til bankanna til að standa undir dásemdinni, svo þeir bregðist ekki bestu viðskiptavinum sínum.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 10:51 f.h.


þriðjudagur, september 11, 2007 :::
 
Hæ,
Í gær fór ég enn eina ferð í bakarí til að kaupa kruðerí með sunnudagskaffinu handa eiginmanninum og einum gestkomandi, þar sem ég nennti ekki að hræra í pönnukökur. Á leiðinni heyrði ég fjálglegt viðtal við einhvern sérfræðing í veitingahúsum, sultugerð og smákökubakstri, sem sagði að á ferðum sínum um heiminn sæktist hann eftir því að finna veitingahús, sem væru rekin af innfæddum og væru ekki hluti af einhverri alþjóðlegri keðju. Ég get ekki annað en verið sammála honum -það er lítið freistandi að fara inn á veitingahús, þar sem hver einasti staður allt frá Súdan til Grímsnessins er gerður eftir einu og sömu teikningu, allir reknir á sama hátt og alls staðar boðið upp á sama matseðil og úrval. Þá varð mér hugsað til þess að mér finnst einmitt ég alltaf sjá sömu búðirnar í öllum borgum, sem ég kem í: Zara, Accessories, Next, Ikea o. s. frv, þannig að maður getur bara keypt gjafirnar handa fjölskyldunni hér heima í rólegheitum og dregið svo pokann út úr forstofuskápnum, þegar heim er komið og sagt: Sjáið hvað ég keypti handa ykkur í Barcelóna, París, Búdapest, Kaupmannahöfn, Prag. London, Osló, Rotterdam, Liverpool eða Hull. Ekkert stress í útlandinu, bara huggulegheit á kaffihúsum og matsölustöðum utan alþjóðlegra keðja.
Lengra komst ég ekki í þessum hugleiðingum, þar sem ég var komin að bakaríinu og dreif mig inn í troðfulla búðina, tók númer og gekk framhjá afgreiðsluborðinu til að gera birgðakönnun. Ég hafði verið sérstaklega beðin að kaupa franskar vöfflur, en það virðist sem sú kökutegund eigi undir högg að sækja í samkeppninni og búið að ryðja henni af bökunarplötunum. Ég ákvað því að keyra í næsta bakarí og freista þess að ná í franskar vöfflur, í þeirri von að þetta púkalega meðlæti væri enn bakað hér á landi. Ég keyrði því yfir í næsta hverfi og gekk inn í bakaríið til að reyna að kaupa frönsku vöfflurnar, en þá rann upp fyrir mér að ég var stödd í sama bakaríinu - bara í öðru hverfi. Það má segja að ég hafi verið tekin í bakaríið.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:03 f.h.




Powered by Blogger