Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, júlí 29, 2004 :::
 
Hæ,
Það er svo margt í þessu lífi sem ég ekki skil, þrátt fyrir ótvíræðar gáfur og hæfileika á sviði pípulagna. Ég á sennilega betur heima í holræsunum heldur en í heiðríkju heimspekinnar, sem greinlega er ekki mín sterka hlið.
Þegar ég sit og horfi á sjónvarpið milli misskemmtilegra dagskrárliða er sjónvarpsauglýsingum dengt yfir áhorfendur eins og steypiregni og ég verð að játa að ég átta mig frekar sjaldan á boðskap auglýsinganna. Ég skil fullkomlega auglýsingar, sem sýna mynd af vöru og segja: “Þessi vara er góð, þetta vantar þig, kauptu þetta og það frekar í dag en á morgun.” Enda væri ég líklega ekki fullgildur félagi í neyslusamfélaginu, ef þessi orð næðu ekki inn í hjarta mitt. En ég get alls ekki áttað mig á innihaldi ýmissa “skilaboða”, eins og þykir svo flott að segja, sérstaklega frá flugfélögum, tryggingafélögum og bílaumboðum. Ég stend á gati frammi fyrir þessum auglýsingum. Það sem mér finnst skemmtilegast við þær er að reyna að geta upp á hver sé að auglýsa í það og það skiptið og hvað sé verið að auglýsa, enda mætti búa til nýja samkvæmisleiki eða fjölskylduspil, þar sem keppst er um að geta upp á og finna út hver auglýsir og hvað. Það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hver er auglýsandi og hvað hann auglýsir, ef ég fæ þá yfirleitt einhvern botn í það.
Það sem mér þykir einnig hvimleitt við þennan annmarka minn er að ég get aldrei munað hver á hvaða auglýsingu og hvað sá er að auglýsa, þótt þessar auglýsingar séu sýndar í skipti eftir skipti. Ég finnst að ég hafi líklega séð þær áður, jafnvel ótal sinnum, en get ekki tengt þær við neitt, finn enga rökrétta tengingu, ekkert ljós í myrkrinu.
En víkjum nú að útvarpsauglýsingum, sem eru oft líka torskiljanlegar. Undanfarnar vikur hef ég heyrt hvað eftir annað leikna auglýsingu í útvarpi, þar sem viðskiptavinur hringir í fyrirtæki og spyr um starfsmann sem mig minnir að heiti Lárus. Nei, Lárus, eða hvað sem hann heitir, er ekki við, hann fór að prófa nýja bíltegund. Og þegar næsta auglýsing er spiluð er starfsmaðurinn enn í reynsluakstrinum og í hvert skipti, sem viðskiptavinurinn hringir er Lárus úti að aka á nýja bílnum og ætlar ekki að koma til starfa í bráð. Síðast þegar ég frétti var hann kominn í sumarfrí.
Mínar hugsanir eru alltaf svo praktískar og á jörðinni. Gat Lárus tekið sér svona langt frí óforvarandis? Hefur fyrirtækið einhverja þörf fyrir starfsmann, sem nennir að vera í reynsluakstri í marga daga og vikur? Er þetta ekki bara einhver óábyrgur krakkaasni? Nennir einhver að reynsluaka bíl í marga daga? Er ekki hægt að gera eitthvað skemmtilegra? Er enginn sem leysir Lárus af? Hefur fyrirtækið efni á því að svara viðskiptavinum sínum á þennan hátt? Kemur það málinu eitthvað við hvað Lárus er að gera? Er ekki nóg að segja að hann sé í fríi og bjóða aðstoð annars starfsmanna? Snýr þessi viðskiptavinur sér ekki bara til annars fyrirtækis, þar sem starfsmennirnir eru ekki úti að aka og sinna erindi hans? Er eitthvað í þessu sem ég ekki skil, eins og er venjan hjá mér, þegar auglýsingar eru annars vegar?
Ég skil heldur ekki alltaf fréttirnar. Nýlega var hauslaust lík halað upp úr Tígris og heimurinn fékk þegar í stað að vita að um væri að ræða búlgarskan leigubílstjóra. Hvernig var vitað að þetta var hann? Vissu menn hvar þeir áttu að leita að honum? Var búið að kortleggja líkfundarstaðinn? Var þetta kannske eina líkið í ánni? Af fréttum hefði mátt skilja sem svo væri. Skrýtið. Þetta kemur ekki heim og saman við mína heimsmynd eða stórfljótamynd. Ég hef haldið frá barnæsku, að botn fljóta á borð við Efrat, Tígris, Níl og Ganges væri þakinn líkamsleifum dýra og manna. Ég lærði ábyggilega í landafræði hjá Tryggva Þorsteins í barnaskóla, að þetta væru algerir drullupyttir, sem lífshættulegt væri að koma nálægt, enda sannast það á hinum búlgarska leigubílstjóra, sem var að þvælast á bökkum Tígris. Ég hef alltaf álitið það hlyti að vera einskær heppni að kasta flugu eða spún í þessar ár án þess að draga inn mannslík, dýrahræ eða parta af öðru hvoru. Ég hélt að gæftirnar á því sviði væru talsvert betri en laxveiði í bestu veiðiám hér á landi. Miðað við höfðatölu.
Þetta er nú því miður aðeins örlítið brot af þeim hlutum, sem eru mínum takmarkaða heila óskiljanlegir.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 3:50 e.h.


miðvikudagur, júlí 28, 2004 :::
 
Hæ,
Ég féll fyrir tveim freistingum í gær.
Önnur var blá og hin var bleik.
Sú bláa æpti á mig í verslun í Kópavogi og var ómótstæðileg enda með 40% afslætti. Sú bleika greip í mig 50% heljartaki í Kringlunni, lét mig máta sig og greiða fyrir.
Ég sparaði heil reiðinnar ósköp.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 4:07 e.h.


þriðjudagur, júlí 27, 2004 :::
 
Hæ,
Ég er svo mikill snillingur, að leitun er á annarri eins færni og hugvitsem. Ég er svo mikill snillingur, að það er alveg unbelievable, eins og einn skólabróðir minn sagði, þegar ég sagði honum, að dóttir mín ynni með honum. “Já, hún er svo fín stelpa, að það er alveg unbelievable,” sagði hann beint upp í opið geðið á mér. Ég sem hélt að hann ætlaði að segja, að hún ætti ekki langt að sækja snilldina, fegurðina og gáfurnar. En þetta var nú bara útúrdúr. Ég ætlaði að tala um allt annað.
Allt í einu á ég fullt af fögrum skartgripum, en þau umskipti í mínu lífi urðu eftir merkisafmæli mitt nokkuð nýlega. Nú fer daglega langur tími í að velja saman skartgripi og fatnað og máta skrautið áður en haldið er úr húsi. Hér áður fyrr var ég alltaf tilbúin á undan eiginmanninum, þegar við fórum eitthvað saman, stóð og beið eftir honum. Nú stendur hann og bíður meðan ég opna hverja öskjuna eftir aðra og reyni að ákveða hvaða eðalgripi eigi að bera við hvert tækifæri, langoftast þegar haldið er til vinnu eða í innkaupaferðir, en einnig í einstaka mannfagnað og veislur. Stundum þarf ég meira að segja að skipta um föt vegna þess að lepparnir sem ég stend í fara ekki fullkomlega við skartið.
Vegna þessarar auknu skartgripaeignar kom ég mér upp kristalsskál á hillu inni í baðherbergi fyrir þá gripi, sem ég nota oftast og þar liggja yfir nóttina armbandsúr, demantshringar og gullarmbönd auk fleiri gripa. Þar hafði ég kvöld nokkurt sett lítið men og samstæða eyrnalokka úr tveim góðmálmun með eðalsteinum.
Líða nú nokkrir dagar án þess að nokkuð beri til tíðinda.
Dagur eitt: Eitthvað fór ég klaufalega og fruntalega að er ég lét armband fljúgja ofan í skálina á þessum fyrsta degi vandræða minna, því þar með spýttist annar af þessum dýrmætu eyrnalokkum upp úr skálinni í fallegum boga beint ofan í niðurfallið í baðkerinu. Hola í höggi, en ekki úti á golfvelli.
Nú voru góð ráð dýr. Ekki fann ég neitt vasaljós til að lýsa niður, svo að ég mældi dýptina, 12 sentimetrar til botns í niðurfallinu, þar sem fallegi eyrnalokkurinn minn lá á kafi í vatni. Ekkert hægt að aðhafast að sinni, enda komið miðnætti.
Dagur tvö: Strax um morguninn fór ég beint upp úr rúminu vopnuð ryksugu inn að baðkeri og prófaði að soga lokkinn upp, en það tókst ekki. Aftur á móti tókst mér að soga vatnið upp úr niðurfallinu. Síðari hluta dagsins hringdi ég í pípulagningamann, sem auglýsir daglega í blöðum alhliða pípulagningaþjónustu og 30 ára reynslu og rakti raunir mínar fyrir honum. Nei, þetta væri vonlaust, 20 – 30 þúsund króna dæææmi - greinilega búinn að tileinka sér þetta leiðindanýyrði, en ég veit ekki hvort sömu framfarir hafa átt sér stað í vinnubrögðum - það yrði að rífa allt upp, svo að þetta yrði að vera dýr lokkur til að návist píparans með alla sína lipurð og reynslu borgaði sig við lausn þessa vanda.
Dagur þrjú: Ákvað að fara og kaupa mér nýjan eyrnalokk af sömu gerð eða réttara sagt nýtt eyrnalokkapar. Það gæti ekki verið dýrara en nýtt baðherbergi. Varð of sein til að fara í skartgripaverslunina, þar sem ég fór nokkra króka á leiðinni. Braut heilann ákaft um kvöldið.
Dagur fjögur: Fór í Kringluna, steðjaði beint í Byggtogbúið og bað um vasaljós, sem gæti lýst niður í holræsi borgarinnar. Engin vandkvæði á því. Fékk vasaljós á 349 krónur. Þaðan fór ég í Hagkaup og keypti drykkjarrör á 99 krónur. Í röradeildinni er hægt að fá dúka, servíettur, glös, diska, hnífapör, rör, blöðrur, kerti og sjálfsagt fleira fyrir barnaafmæli allt saman í stíl og setteringum. Það má kannske líka nota þetta í fullorðinsafmælum. Ég vissi bara ekki að svona lagað væri til. Þetta sannar að ég er ekki nógu dugleg að kynna mér úrval í stórmörkuðum. Verð að hætta að hanga í mjólkurkælinum og grænmetis- og ávaxtadeildinni.
Síðan var haldið heim og nú skyldi lagt til atlögu við niðurfallið alltgleypandi. Ég lýsti niður í kjaft óvættarinnar og þarna glampaði eyrnalokkurinn minn á 12 sentimetra dýpi í rörinu.
Ég flanaði ekki að neinu, heldur tók smáæfingu áður en ég hófst handa. Opnaði skartgripaskrín og prófaði að soga nokkra eyrnalokka fasta við rautt afmælissogrör og lyfta þeim í 14 sentimetra hæð. Það gekk býsna vel. Best gekk mér með kúlueyrnalokka, ég gat alveg dansað með þá um gólfið, verr gekk með lokka af óreglulegri lögun og hinn glataði eyrnalokkur var vægast sagt mjög óheppilegur í lögun fyrir þessar æfingar.
Síðan fór ég ofan í baðferið, lagðist á magann, lýsti ofan í niðurfallið, setti rörið á lokkinn og saug hann fastan við rörið. Þegar ég var hálfnuð að draga hann upp, hringdi síminn og ég hrökk svo við, að ég missti hann aftur niður – næstum í hvarf. Ég náði lokknum upp í þriðju tilraun. Þvílík snilld, ég gat gefið frat í alla pípara þessa heims og annars.
Nú er tappinn hafður í baðkerinu og verður þar.
Þrátt fyrir þetta afrek skyggir eilítið á gleði mína þessa dagana. Nú þarf ég að slá út rafvirkjastétt landsins. Það er bilun í halógen-ljósum á baðinu hjá mér, sem ég hef ekki komist fyrir.
Kveðja,
Bekka (pípulagningameistari)



::: posted by Bergthora at 4:57 e.h.




Powered by Blogger