Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

laugardagur, mars 24, 2007 :::
 
Hæ,
Stutt og ljóst er sumarlúkkið - svona hljóðar fyrirsögn í Blaðinu í dag. Hártíska sumarsins er sem sagt alveg sniðin að mínu hári, sem er stutt og ljóst. Svona getur lánið leikið við mann. Bara komin í tísku áður en tískan verður að tísku.
Aftur á móti lék lánið ekki við mig í vikunni þegar flugþjónar hjá SAS ákváðu að fara í verkfall fyrirvaralaust og lögðu niður vinnu, þannig að aflýsa varð yfir 90 flugferðum á vegum félagsins. Þetta vesen á flugþjónunum varð til þess að ég sat kófsveitt í þrjár klukkustundir við að koma þrem af aðalgúbbunum á kanínubúinu á áfangastað á réttum tíma, en þeir voru allir voru staddir úti í heimi og áttu samanlagt að fljúga fimm sinnum með SAS þennan dag. Ég veit ekki hverjum á að þakka það að þeir komust allir á réttan stað þann hinn sama dag, en eitt er víst að þakkirnar munu ekki falla í garð SAS. Ég sagði líka þegar ég stóð upp frá skrifborðinu og leið eins og ég hefði bjargað heiminum frá tortímingu, að flugþjónarnir hefðu ekki látið sér detta í hug að gera verkfall, ef þeir hefðu vitað hvað það bakaði mér mikinn vanda.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 8:37 e.h.


föstudagur, mars 23, 2007 :::
 
Hæ,
Mér barst til eyrna auglýsing á öldum ljósvakans í dag, þar sem Lýður Oddsson geystist fram með ný skilaboð til áheyrenda. Hann sagði að nú yrði Björg sko aldeilis hissa þegar hún heyrði hann tala úr sínu einkastúdíói, en hún væri auðvitað í vinnunni. Á eftir komu upplýsingar um að íslenski lottó-potturinn væri tvöfaldur og til mikils að vinna.
Lýður talar oft um hversu gott sé að vakna snemma á morgnana til þess eins að geta sofnað aftur. Hann er margoft búinn að tyggja ofan í þjóðina að Björg hefur fengið þá hugmynd að þau leggi fyrir til að eiga fyrir utanlandsferð. Lýður leggur til að hún leggi fyrir og noti sína peninga til að kaupa utanlandsferð handa þeim. Eina hreyfingin sem Lýður fær virðist vera hreyfing á talfærum til að gorta af peningaeigninni og tíðar ferðir í bankann vegna lottóvinningsins.
Ég veit ekki í hvaða lottói Lýður Oddsson hefur unnið þá peninga, sem halda honum uppi, þannig að hann þarf ekki lengur að stunda vinnu, getur borðað önd og humar hversdagslega og komið sér upp einkastúdíói til að breiða út boðskapinn, sem er sá að hann liggur í leti heima, en eiginkonan, hún Björg, heldur áfram að vinna, enda var það hann sem keypti miðann og á peningana. Það er nefnilega ekki hægt að lifa því kóngalífi á íslenska lottóvinningnum sem Lýður státar sífellt af. Þar sem alltaf er hnýtt upplýsingum um hinn ofurfulla íslenska lottópott aftan við fagnaðarerindi Lýðs Oddsonar er ekki úr vegi að ætla að hann hafi keypt sér miða í lottói Íslenskrar Getspár og haldi að hann geti lifað í vellystingum praktuglega á upphæð sem nær yfirleitt ekki árstekjum launþega í neðri kantinum. Kannske hefur potturinn verið tvöfaldur þegar hann féll honum í skaut, en það er mín skoðun að Lýður Oddsson gæti ekki leyft sér lúxusinn nema af því að Björg vinnur úti og skilar í búið jafnmiklu eða jafnvel meiru en sá heppni. Hans lukka er líklega bara fólgin í því að Björg skuli yfirleitt líta við honum.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:04 e.h.




Powered by Blogger