Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, febrúar 01, 2006 :::
 
Hæ,
Hvernig stendur á því að Þorsteinn Pálsson þarf að fá sér vinnu? Er hann ekki á margföldum eftirlaunum, sem fyrrverandi alþingismaður, sendiherra og sjálfstæðisflokksforkólfur? Fékk hann ekkert af eftirlaunaköku Alþingis þegar hún var á borð borin? Ekki einu sinni stjúpusneið? Eru strákarnir í flokknum enn að hrekkja hann og leggja í einelti?
Meðan Þorsteinn var ráðherra var hann titlaður blaðamaður í símaskránni og gert mikið grín að honum þess vegna í gulu pressunni. Hann er kannske enn skráður blaðamaður í skránni og ákveðið að taka að sér stöðu á þeim vettvangi til þess að þurfa ekki að gera breytingu í skránni, sem er virðist vera verkefni, sem er nokkuð þungt í vöfum og ekki bætir úr skák að erfitt getur verið að eiga við starfsfólkið á Símanum þótt aðeins sé um að ræða venjulegt fólk með einn heimilissíma og einn farsíma. En förum ekki meira út í þá sálma.
En ég ætti auðvitað alls ekki að gera grín að Þorsteini Pálssyni vegna þess að ég lenti í því að vera við hlið hans og erlends ráðherra nokkra daga og nokkur kvöld og túlka samviskusamlega allt sem þeim fór í milli vegna þess að þeir töluðu ekki neitt sameiginlegt tungumál. Þetta var bara nokkuð gaman. Ég fékk fínan mat allan tímann, borðaði m. a. á Holtinu og í Ráðherrabústaðnum, var keyrð fram og til baka, stundum sat ég á milli ráðherranna í bíltúrunum, keyrð heim og sótt í vinnu ef ég bað um það og það sem best var: Ég fékk vel borgað fyrir samkvæmt reikningi fyrir hverja sekúndu og gat lagt ofan á reikninginn margra prósenta skítaálag, þ.e. þar sem um vinnu var að ræða, sem fáir gátu leyst af hendi, sjaldgæft tungumál að mati stjórnarráðsins, sem kallaði þetta erfiðisálag. Reikningurinn var greiddur athugasemdalaust og umsvifalaust. Lengi á eftir langaði mig til að vinna í ráðuneytinu hjá Þorsteini, láta keyra mig heim og að heiman, borða á fínum stöðum, láta færa mér kaffi inn á skrifstofu og fá svo borgað fyrir með hraði. Þorsteinn má líka eiga það að hann var bara orðinn nokkuð kammó í lok vikunnar eftir að hafa setið eða staðið við hlið mér frá morgni til kvölds. Að skilnaði tók hann þéttingsfast í höndina á mér þegar erlendi ráðherrann var horfinn á braut, þakkaði mér innilega fyrir aðstoðina og brosti til mín. Kannske var hann bara svona feginn að vera laus við mig.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 2:55 e.h.




Powered by Blogger