Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, júní 21, 2006 :::
 
Hæ,
Undanfarnar vikur hef ég farið í jóga hér í vinnunni tvisvar í viku undir stjórn þaulreyndra jógakennara, sem hafa hvatt hópinn - sem hefur að vísu farið síminnkandi frá byrjun - til að öðlast innri ró og styrk með einbeitingu, djúpöndun og slökun. Mér hefur alla ævi gengið frekar illa að ná stjórn á huganum og ef ég ætti að lýsa starfsemi hans og hátterni mætti einna helst líkja því við þeytivindu á 2.500 snúninga hraða á mínútu. Þar fyrir utan hefur sérfræðingur minn í nálarstungum og austrænum lækningum sagt mér að ég innbyrði afar lítið magn af súrefni, ekki nema rétt þann skammt sem er bráðnauðsynlegur til að draga fram lífið með herkjum. Ekki míkrógramm þar yfir, svo það er mesta furða að ég skuli vera á lífi yfirleitt.
Með því að drífa mig í jógatímana hef ég verið að vinna í sjálfri mér eins og er svo vinsælt og áhrifaríkt á þessum tímum, sem sagt að reyna að einbeita mér og slaka á til að öðlast hugarró og staðfestu og jafnframt að anda að mér aukaskammti af súrefni, sem ég veit að vísu ekkert hvað ég á við að gera. Þar sem hugurinn er yfirleitt í þeytivindustemmningunni tekst mér sjaldan að festa hann við að vinna í mínu innra sjálfi og hef alltaf miklu meiri áhuga á því sem er að gerast í kringum mig og hjá öðrum, hvað gerðist í fyrra, fyrir tíu árum, hvað gæti gerst á morgun eða eftir nokkur ár. Ég hef þess vegna notað jógatímana til þess að anda og einbeita mér. Þar fyrir utan hendist ég áfram súrefnislaus og sambandslaus við sjálfa mig.
Í gær settist ég niður í síðasta jógatímann í bili og kom mér makindalega fyrir í lótusstellingu á hugleiðslupúða og flísteppi. Við lokuðum augunum og að skipan jógakennarans var andinn dreginn djúpt, djúpt í gegnun nefið og óhreinu lofti varpað til baka gegnum munninn. Eftir nokkrar öndunaræfingar sagði kennarinn okkur, að við skyldum hætta afskiptum af önduninni, slaka á og beina huganum inn á við. Ég hafði augun lokuð og sneri þeim við í huganum til að horfa inn á við. Allt í einu horfði ég inn í sjálfa mig - inn í mjúka og dumbrauða hlýju. Þar var hugurinn kyrr og rólegur. Ég heyrði út undan mér að sú sem næst mér sat bað fólk að færa sig til svo betra pláss skapaðist fyrir einhverja tvo trassa, sem komu of seint í tímann. Þá gerðist það undarlega. Ég vildi ekki fara til baka - heldur sat grafkyrr og starði inn í kyrrð eigin huga dágóða stund.
Jógatími gærdagsins var sigurstund – augnablikið sem ég réð við huga minn. Guð veit hvenær slík stund rennur upp næst.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:21 e.h.


 
Hæ,
Ég var að horfa á tíu-fréttirnar í Ríkissjónvarpinu þriðjudagskvöldið 20. júní 2006. Ég verð að segja að mér þykir Hvöt hvöt.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:19 f.h.




Powered by Blogger