Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, október 24, 2003 :::
 
Hæ,
Ég las í Fréttablaðinu í morgun að núna væri til Becks Gold! Ég sem hélt að Bekks Gold hefði verið til lengi, lengi...
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:07 e.h.


fimmtudagur, október 23, 2003 :::
 
Hæ,
Alltaf er jafngaman að lesa bloggið og fá nýjustu fréttir af ættingjunum. Ég er löngu farin að líta á það sem sjálfsagðan hlut að frétta jafnóðum hvað gerist á Freyjugötu, í Hlíðunum, Heimunum, í Álaborg, 18. hverfi í París og Barselónu, svo eitthvað sé nefnt. Allir eiga tölvu, eina, ef ekki tvær, eru sítengdir - gegnum netið og símakerfið. Flestir með tvö til þrjú netföng, þrjú til fimm símanúmer og hægt að ná í hvern sem er, hvenær sem er, hvar sem er - nema viðkomandi vilji ekki láta ná í sig og þykist ekki taka eftir tölvupósti, MSM, SMS, talhólfum og skilaboðaskjóðum.
Mér finnst oft ótrúlegt hvað eitt lítið símatæki getur haft mikið vald yfir fólki. Ein hringing og öllu er hent til hliðar til að svara sem fyrst, ungbörn skilin eftir á borðbrún, matur skilinn eftir á glóandi eldi - síminn hefur forgang. Fólk leggur sig og aðra hiklaust í lífshættu á keyrslu til að svara í símann eða til að hringja. Þetta sama fólk gerir að öðru leyti endalausar kröfur til þjóðfélagsins um öryggi sitt.
Öðru vísi mér áður brá. Er ég orðin svona gömul? Hefur tækninni fleygt svo hratt fram?
Ekki veit ég hvort er og sennilegt að hvoru tveggja eigi sér einhvern sannleiksgrunn. Þegar Hildigunnur frænka fór til Parísar um daginn með nýja Medion-fartölvu undir handleggnum, með íslenskan GSM-síma upp á vasann og var komin með franskan GSM-síma strax við lendingu á De Gaulle varð mér hugsað 35 ár og tæpa tvo mánuði aftur í tímann.
Þá lögðum við hjón upp til Sovétríkjanna til náms, nánar tiltekið til Moskvu, þar sem við bjuggum á Lenínhæðum í suðausturhluta borgarinnar. Á leiðinni frá Kaupmannahöfn til Moskvu heyrði ég járntjaldið renna þyngslalega niður fyrir aftan vélina og stöðvast með dimmum og drunandi skelli. Þar með var búið að rjúfa samskipti við fjölskyldu og vini nema gegnum bréfaskriftir upp á gamla mátann. Bréfin á milli voru 3 - 6 vikur á leiðinni, en það má segja sovéskri póstþjónustu og ritskoðun til hróss að þau skiluðu sér öll. Að vísu var oft búið að rífa frímerkin af þegar við fengum bréfin, en það hélt ekki fyrir okkur vöku, svo langþráð voru bréfin og kærkomin.
Við höfðum engan síma, en einn sameiginlegur sími var á hæðinni á stúdentagarðinum, þar sem bjuggi líklega um 100 manns, og einn sjálfsali, sem var voða oft bilaður, svo erfitt var að ná í okkur. Vinir úti í bæ tóku það ráð að koma í heimsókn til að koma erindum á framfæri. Við hefðum getað sótt um síma, en biðin eftir tengingu var svo löng að okkur fannst ekki taka því að sækja um slíkt, enda námið í Sovétríkjunum ekki nema sex ár fyrir útlendinga.
Fyrstu jólin okkar úti vorum við í sendiráðinu á aðfangadagskvöld og sendiherrann tók upp á því að fara í samkvæmisleiki til að skemmta stúdentunum, enda má segja að það hafi verið veruleg tilbreyting, því við stunduðum slíka skemmtun lítt á þeim árum. Hann var m.a. búinn að útbúa spurningakeppni og verðlaunin í þeirri keppni voru símtal til Íslands. Við hjón höfðum þann hátt á að Eyjó hvíslaði að mér svörunum, sem hann vissi og ég svaraði þar með flestum spurningum, sem voru frekar barnalegar, með glæsibrag og hlaut símtalið eftirsótta.
Þegar átti svo að fara að hringja á aðfangadagskvöldið var svarið á símstöðinni að ekki væri lína til Íslands í bili. Ég fékk því 20 rúblur fyrir símtali, sem var enginn smápeningur, því námsstyrkurinn var 90 rúblur á mánuði. Ég fór því fljótlega á símstöðina í háskólabyggingunni og pantaði mér símtal til Íslands. Biðin var hátt í fjóra tíma. En símtalið var þess virði.
Eftir þetta höfðum við þann hátt á að hringja heim tvisvar á vetri, einu sinni fyrir jól og einu sinni eftir jól. Biðin eftir símtali til Íslands styttist ekki þann tíma sem við bjuggum í landi Brjesnefs.
Seint í febrúar-mánuði þennan fyrsta vetur fékk ég bréf að heiman, sem hafði verið óvenjuskamman tíma á leiðinni - 10 daga. Í því sagði pabbi þær fréttir að Kristján Einarsson, föðurafi minn væri látinn og búið væri að jarðsetja hann.
Talsverðar breytingar á 35 árum.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 11:34 f.h.




Powered by Blogger