Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, janúar 30, 2004 :::
 
Hæ,
Það eru tveir búnir að tilkynna formlega komu sína í afmælið mitt - Þura frænka frá Danmörku, sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna og ætlar að leggja land undir fót með reifabarnið - flott hjá þér Þura - og Þóra Þorsteins, bloggaðdáandi minn nr. EITT. Ég get þá farið að færa mig úr símaklefanum á Lækjartorgi með afmælið í stærra húsnæði. Mér finnst þetta bara ljómandi heimtur miðað við að ekki er búið að senda út boðskortin, heldur bara tilkynna um viðburðinn í blogghringnum.
Ég hef varla sofið væran blund síðan ég ákvað að halda upp á merkisafmæli mitt og ligg andvaka um nætur við að skipuleggja matseðil, boðsgestalista, skreytingu á salnum, niðurröðun við borð, söngtexta, röð skemmtiatriða og fyrirkomulag í heild. Ég hélt að ég þekkti ekki nokkurn kjaft nema nánustu ættmenni - þá kemur í ljós að ég þekki hálft landið fyrir utan alls kyns stórmenni, sem hafa boðið mér í merkisafmæli hjá sér. Þetta kom mér verulega á óvart.
Þið fáið e.t.v. að fylgjast með áhyggjum mínum og framkvæmdum vegna þessa stórviðburðar - þ.e.a.s. ef ég hef tíma til að blogga næstu vikur vegna samfellds undirbúnings.
Kveðja,
Bekka




::: posted by Bergthora at 5:37 e.h.


þriðjudagur, janúar 27, 2004 :::
 
Hæ,
Alltaf er nú jafngaman að fara blogghringinn og frétta af fólkinu, sem er misduglegt að blogga. Ég ætlaði að setja inn kveðju og hvatningaróskir í komment/tilskrif til Þuru, svona rétt til að peppa hana upp fyrir fæðingu fjórða erfingjans, en þá virkaði ekki kommentakerfið hjá henni. Sem sagt – Þura, góða ferð á fæðingardeildina og gangi þér vel. Vonandi fær blogghringurinn fréttir sem fyrst þegar litla barnið kemur í þennan heim.
Ég var að hugsa um að nota eitthvert lýsingarorð með orðinu heimur, en vissi ekki hvaða orð skyldi nota um þennan heim, því víst er hann bæði undurfagur og dásamlegur og í sömu andrá svo stríðshrjáður og grimmur. Við erum bara svo heppin að búa í besta hlutanum, þar sem nóg er að bíta og brenna, þar sem menntun er orðin sjálfsögð krafa, þar sem íbúarnir lifa sínu góða lífi á kostnað annarra jarðarbúa og gera kröfur út fyrir öll mörk velsæmis og siðferðis.
Mikið er um afmæli um þessar mundir – síðbúnar afmæliskveðjur til Guðmundar Þóris, innilegar afmæliskveðjur til Hildigunnar frönsku, sem fetar sig smátt og smátt eftir þrítugsaldrinum – ég hringdi í hana í gærkvöldi til að óska henni til lukku. Hún var að elda hátíðarkvöldverð handa sér og gestum sínum – lasanja. Ég var að steikja fiskibollur meðan ég talaði við hana og hún dauðöfundaði mig af því lostæti. Er eitthvað sem jafnast á við íslenskar fiskibollur? Ábyggilega, ég man bara ekki eftir neinu í svipinn.
Og svo á Þór merkisafmæli í dag, orðinn þrítugur, kominn á fertugsaldurinn. Hjartanlega til hamingju, Þór!
Mér finnst svo stutt síðan þau tvö, Þór og Hildigunnur, voru smákrakkar, smámælt, í smábarnaleikjum. Hvert hefur tíminn flogið?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:32 e.h.




Powered by Blogger