Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

laugardagur, maí 05, 2007 :::
 
Hæ,
Um daginn komu tvær frænkur mínar í heimsókn. Kosningarnar komandi bárust í tal og önnur þeirra sagði í framboðsræðu, sem hún hélt af miklum móð, að kosningarnar yrðu þann 12. maí. Það var eins gott að þetta datt upp úr henni, því ég hélt að kosið yrði þann 16. maí. Ég hefði tekið lífinu með ró og líklega birst á kjörstað nokkrum sólarhringum of seint til að greiða mínum mönnum atkvæði alveg úti að aka.
Annars eru úrslitin þegar ljós. Ómar Ragnarsson og hans flokkur styðja núverandi ríkisstjórn til áframhaldandi setu. Það er löngu vitað að allflest ný framboð taka fylgi frá vinstri flokkunum, sem eru margklofnir og sundraðir. Þau skila Sjálfstæðisflokknum sigri og velgengni og gefa nú sem undanfarið Framsóknarflokknum möguleika á að sitja áfram í ríkisstjórn í skiptum fyrir að styðja við rassgatið á íhaldinu fram í rauðan dauðann og út fyrir öll mörk, enda hefur Framsókn rakað að sér bitlingum og fjármunum í stjórnarsamstarfinu.
Svei mér, ef það tekur því að eyða bensíni i að fara á kjörstað. Væri ekki nær að sitja heima og spara útblásturinn?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 9:07 e.h.


föstudagur, maí 04, 2007 :::
 
Hæ,
Ég er búin að finna þessa líka fínu megrunaraðferð, sem ætti að duga til að ná af mér spiki og aukafellingum, sem hrjá mig. Eftir að hafa burstað tennurnar á hverjum morgni um nokkurra áratuga skeið varð mér ljóst að ég verð pakksödd af tannkreminu, sem ég nota hraustlega. Á eftir hef ég litla sem enga lyst á mat, þótt ég troði í mig af gömlum vana hafragraut, lýsi og tebolla eftir hina daglegu morguntannhreinsun. Það ætti að nægja að bursta tennurnar á klukkutíma fresti yfir daginn og nota vel af tannkreminu, verða pakksödd og leggja af.
Vandamálið er að mér finnst flest matarkyns miklu betra en tannkrem og langar langtum meira í góðan mat, sælgæti og ljúffenga hamborgara heldur en að kreista úr tannkremstúbu upp í mig.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:16 e.h.


fimmtudagur, maí 03, 2007 :::
 
Hæ,
Ég skrapp til Akureyrar um helgina og lenti í svo góðu veðri að ég man varla annað eins undanfarin ár. Hitinn var kominn upp fyrir 20 stig þegar risið var úr rekkju og hélst talsvert á þriðja tug gráða þá daga sem ég dvaldi á mínum æskustöðvum. Auðvitað rifjuðust upp margar minningar i ferðinni og þær tengdust allar sama blíðskaparveðrinu - í endurminningunni var alltaf steikjandi hiti og sólskin, þar sem ég var að leik úti á lóð í rósóttum eða röndóttum sumarkjól, með slaufu í hári, í hvítum leistum og léttum sumarskóm með bandi yfir rist. Svo var komið inn í sömu tandurhreinu fötunum eftir að hafa hoppað í parís eða farið í boltaleik. Það var sko ekki drulluverkið á manni í æsku.
En í þetta skipti háði mér verulega að ég fór af stað að heiman í vetrarklæðnaði, sem hefur yfirleitt dugað mér árið um kring, auk þess að vera í leðurklofstígvélum. Þá var fyrirhyggjan var slík að ég hafði með mér þrjú sett af vetrarfatnaði til skiptanna og auðvitað í sem dekkstum litum, að megninu til svart. Það hefði auðvitað mátt lita á veðurspár áður en haldið af af stað norður yfir heiðar, en það gleymdist í erli dagsins.
Það er skemmst frá því að segja að ég var að drepast úr hita allan tímann og svo þreytt og þjökuð af hitasvækjunni, að ég treysti mér ekki niður í bæ til að kaupa mér léttan og ljósan sumarfatnað. Hafði einfaldlega ekki orku í slíkan leiðangur.
Það þýðir líklega ekki annað en að koma sér upp “sommergarderob” í snatri, ef hitinn skyldi drullast upp fyrir 12 gráður á Celcius.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:57 e.h.




Powered by Blogger